Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

17.3.06

Den falske melodi eftir Claus Blok Thomsen

Ég sat í haust fyrirlestur hjá dönskum mannfræðiprófessor við Malmö-háskóla. Hann málaði afar svarta mynd af danskri þjóðfélagsumræðu og sagði að nánast engir afkimar hennar væru undanskildir þeirri kynþáttahyggju sem herjaði á samfélag hans. Allir fjölmiðlar og allir stjórnmálaflokkar hefðu gerst sekir um að vera á sama báti í þessu máli.

Eftir að hafa fylgst sjálfur nokkuð náið með umfjöllun danskra fjölmiðla á innflytjendamálum verð ég sjálfur nú samt að játa það að mér fannst danski prófessorinn fella nokkuð harðan dóm yfir löndum sínum. Vissulega er það rétt að þjóðernishyggja og rasismi hafa skotið skuggalega föstum rótum í dönsku samfélagi en hins vegar þykir mér ósanngjarnt að setja öll stjórnmálaöfl og alla fjölmiðla undir sama hatt í þessu sambandi. Hvað varðar fjölmiðlana þá þykja mér bæði dagblöðin Politiken og Information hafa staðið sig nokkuð vel í því að gagnrýna stjórnvöld í fyrir meðferðina á innflytjendum og halda uppi málefnalegri og gagnlegri umræðu innan málaflokksins.

Enn meira þótti mér til umfjöllunar Politiken koma þegar að ég rakst á nýútkomna bók (útg. í janúar 2006) sem gefin er út af bókaútgáfu Politiken. Þetta er bókin Den falske melodi eftir Claus Blok Thomsen, blaðamann á Politiken sem undanfarin ár hefur sinnt umfjöllun blaðsins um málefni innflytjenda í Danmörku. Bókin fjallar um viðhorf Thomsens til innflytjendastefnu ríkisstjórnar Anders Fogh Rasmusses og er vægast sagt mjög gagnrýnin á þá stefnu.

Stefnan átti opinberlega að beinast gegn þvinguðum hjónaböndum innflytjenda en hefur snúist upp í það að vera þrándur í götu danskra ríkisborgara sem voru svo seinheppnir að bindast mökum frá löndum sem standa utan Evrópusambandsins. Danir geta því ekki lengur snúið heim til sín og þau grundvallarmannréttindi að fjölskyldur eigi rétt á því að búa saman eru þverbrotin. Reglurnar eru í bága við ákvæði mannréttindadómstóls Evrópuráðsins og fjöldi stofnana og samtaka sem láta sig mannréttindi varða hafa bent á brotin sem í innflytjendalögunum felst.

Thomsen lýsir því skýrt og skilmerkilega í hvaða ógöngur dönsk stjórnvöld rata í nánast hvert einasta skipti sem að höfnunum þeirra um dvalarleyfi maka er skotið til Evrópuráðsins. Þar sem tap í málinu er næsta víst þá er það yfirleitt lausn danskra stjórnvalda að leyfa bara viðkomandi að setjast að til þess að losna við frekari málarekstur.

Og rökin eru alltaf þau að þetta sé gert til að koma í veg fyrir þvinguð hjónabönd og virðing fyrir sjálfstæðum vilja ungmenna, sérstaklega kvenna, til þess að velja sér maka sjálf sé þar í fyrirrúmi. Hins vegar kemst Thomsen að því í samtölum við fagaðila og fulltrúa samtaka sem vinna gegn þvinguðum hjónaböndum í Danmörku að lögin hafi ekki haft nokkra þýðingu og jafnvel gert illt verra. Rétta leiðin sé fræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir í hópum innflytjenda og styrking sjálfsmyndar ungra Dana af erlendum uppruna.

Lögin bitni því á þeim sem síst skyldi, þverbrjóti gróflega alþjóðlega mannréttindasáttmála en séu samt vitavonlaus í baráttu við hin yfirlýstu markmið. Eina markmiðið sem þau ná er að þau hafa með sanni minnkað straum innflytjenda og styrkt í sessi kynþáttahyggjuna sem ríkir í Danmörku.

Bókin er nauðsynlegt og þarft innlegg inn í umræðuna um mesta hitamál í stjórnmálum í Danmörku á síðari tímum. Stundum hefði höfundurinn mátt skerpa ögn á innihaldinu og sleppa lagalegum útlistunum á ákvæðum innflytjendalaga en í heildina séð nær hann því markmiði sínu að sýna fram á fáránleik og gagnsleysi þessara mannfjandsamlegu laga og þeirrar hatursfullu stemningar sem ríkisstjórn Danmerkur nærist á þessi árin og misserin.

Pole to Pole (stytt útgáfa) eftir Michael Palin

Afskaplega notalegt í kuldakastinu hér við Eyrarsundið að ferðast í huganum með Michael Palin frá norðurpól og að suðurpól (reyndar er eðlilega skemmtilegast í kuldanum að hlusta á hann vera sem lengst frá pólunum).

Palin ferðaðist sem sagt ásamt BBC-tökuliði frá póli til póls árið 1991 og setti sér það markmið eitt að ferðast ekki með flugi nema algera nauðsyn bæri til. Það gekk eftir alveg þangað til á syðsta odda Suður-Afríku en þar brást farið á Suðurpólinn og því þurfti að fljúga til Chile og fara þaðan suður á pól.

Uppfullt af þessum breska kaldhæðna húmor sem stundum er skemmtilegur en stundum líka nett svona hrokafullur.

Í heild bara alveg ágætt.

13.3.06

The Book of Illusions eftir Paul Auster

Það renna alltaf á mig tvær grímur þegar að ég les aftan á hylkjum hljóðbóka að höfundarnir sjálfir lesi. Ég hef nefnilega þá reynslu að skáld séu oftar en ekki búin að temja sér einhvern alveg ótrúlega tilgerðarlegan og uppskrúfaðan upplestrarstíl. Þetta gerir það að verkum að oftar en ekki eyðileggja rithöfundar eigin verk með bjánalegum upplestri.

Paul Auster er hrein og klár undantekning frá þessari reglu. Röddin er svöl og hæfir einhvern veginn efni bóka hans alveg fullkomlega. Upplestur hans á The Book of Illusions er því algjörlega til fyrirmyndar. Og svo er bókin óstytt í upplestri sem er ánægjuleg undantekning frá þeim skelfilega ósið í enskumælandi löndum að stytta bækur í hljóðbókarútgáfu.

Bókin fjallar um David Zimmer, prófessor sem missir konu og börn í slysi og tekst ekki að höndla tilveruna á nýjan leik fyrr en hann sekkur sér ofan í verk Hectors Mann, gleymdrar kvikmyndastjörnu frá tíma þöglu myndanna. Hann verður svo gagntekinn af myndum Manns að hann skrifar bók um verk stjörnunnar gleymdu. Líður svo og bíður þar til einn dag berst honum bréf frá eiginkonu Hectors Mann þar sem hún segir eiginmann sinn vilja hitta hann að máli. Þetta kemur David í opna skjöldu enda hafði Hector Mann horfið á dularfullan hátt meira en hálfri öld áður og af flestum talinn löngu dáinn.

Eftir þetta fer mikil atburðarás af stað, bæði hjá David sjálfum en einnig í öllum þeim rammasögum sem framvindunni tengjast.

Paul Auster er sjálfum sér líkur í þessari bók. Persónurnar eru náskyldar þeim sem komu fyrir í New York-þríleiknum: Þær kjósa helst að lifa í algerri einveru sem einungis er brotin upp utanfrá. Undirliggjandi er missir, sorg og söknuður sem þó er grafinn og bældur. Og sama undirförula og mystíska yfirbragðið einkennir The Book of Illusions og var alltumlykjandi í New York-þríleiknum.

Tvímælalaust besta bók Auster af þeim sem ég hef lesið (eða hlustað á).

11.3.06

Lasermannen: En berättelse om Sverige eftir Gellert Tamas

Patrick Bateman, aðalsöguhetja bókarinnar (og kvikmyndarinnar) American Psycho er einhver ógeðfelldasta persóna sem ég man eftir að hafa orðið vitni að í veröld skáldskaparins. Kannski var það vegna þess vegna hrottalega líkur hann var raunverulegum uppum á allan hátt. Ég nefni þetta vegna þess að morðóðir uppar eru ekki bara til í skáldskaparheimum. Einn slíkur var af holdi og blóði og gekk til myrkraverka sinna í Stokkhólmi, af öllum stöðum, veturinn 1991-2.

Maðurinn sá hét John Ausonius. Hann hafði þénað vel af verðbréfaviðskiptum í uppsveiflu níunda áratugarins og lifði góðu lífi sem einn af þessum nýríku uppum sem spruttu upp eins og gorkúlur á þessum tíma. Einn dag var hins vegar ævintýrið á enda: verðbréf á markaði hrundu í verði - góðæri níunda áratugarins hafði náð hámarki sínu. Ausonius tapaði miklum fúlgum eins og aðrir en var orðinn háður því að hafa mikið fé umleikis. Hann greip því stöðugt til örvæntingarfyllri aðgerða til þess að græða fljótt, byrjaði á fjárhættuspilum en áður en hann vissi af var hann farinn að fremja bankarán til þess að halda við lífsstíl sínum.

Í upphafi tíunda áratugarins var allt góðæri á bak og brott og í hennar stað var komin djúp efnahagskreppa í Svíþjóð. Svíar fylltust mikilli óvissu við þessar kringumstæður og, eins og þekkt er víðar í slíkum tilvikum, þá hófu popúlísk öfl að birtast á sjónarsviðinu og bjóða upp á skyndilausnir við vandanum. Og hver er besta leið popúlískra afla til vinsælda og hverjum kenna þau öllum vandanum um? Svar: innflytjendum, auðvitað!

Nýnasísk og þjóðernissinnuð öfl náðu því gríðarlegu fylgi meðal sænsku þjóðarinnar og loftið var vægast sagt læfi blandið enda kom til ofbeldisfullra átaka víða um Svíþjóð sem fullmannað lið lögreglu átti í mesta vanda við að ráða við og í sumum tilfellum datt mönnum helst í hug að kalla út herlið (sem vafalaust hefði verið gert, stríddi það ekki gegn sænskum lögum að nota herlið við borgaralegar aðstæður).

Smitaður af þessu andrúmslofti og langsóttri röksemdafærslu (sem þó gekk upp) ákvað Ausonius að ganga til verks, fá sér byssu með laser-miði og fara að skjóta innflytjendur. Ástæðurnar voru fyrst og fremst tvær: 1. Hann vildi fækka innflytjendum sem hann leit á sem einhvers konar meindýr í samfélaginu 2. Hann skaut fólk til að beina athygli lögreglunnar frá bankaránum sem hann framdi reglulega og hélt sér uppi á.

Ausonius náði að skjóta ellefu innflytjendur í Stokkhólmi og nágrenni veturinn 1991-2 áður en lögreglan náði loks að hafa hendur í hári hans. Til allrar hamingju leiddu árásirnar aðeins til dauða eins fórnarlambanna en þrátt fyrir það skapaðist ástand fullkominnar örvinglunar í sænsku höfuðborginni þennan vetur vegna skotárásanna síendurteknu sem lögreglunni tókst svona illa að bregðast við. Allt í einu var Stokkhólmur orðinn að Lundúnum Kobba kviðristu eða New York á sumri Sams - vettvangur fjöldamorðingja sem gekk laus. Enginn vissi hver yrði næstur.

Gellert Tamas, höfundi bókarinnar um þessa atburði, tekst á aðdáunarverðan hátt að draga upp spennandi og lifandi mynd af ástandinu. Tamas nýtir sér stíl glæpasögunnar við ritun bókarinnar og það er því ekki skrýtið að maður rífi innihald hennar í sig eins og um eðalkrimma væri að ræða. Lykilatriði bókarinnar eru þó einstök og ítarleg viðtöl sem Tamas átti við sjálfan fjöldamorðingjann sem nú situr á bak við lás og slá í sænsku fangelsi (og fer ekki þaðan í bráð). Tamas varð þar með eini blaðamaðurinn sem Ausonius hefur nokkru sinni fallist á að ræða við.

Árangur þessara samtala er einkar ítarleg mynd af morðingjanum, allt frá barnæsku hans og til þess dags þegar að lögreglan náði loks að handsama hann vorið 1992. Lesandinn fær meðal annars nákvæmar lýsingar morðingjans á voðaverkunum sjálfum.

Inn í allt þetta fléttar Tamas svo heildstæða og skilmerkilega mynd af sænsku aldarfari í upphafi tíunda áratugarins - tíma sem Svíar vilja helst sem minnst vita af í dag. Á þessum tíma grasseruðu útlendingahatur, öfgafull þjóðernisleg viðhorf og lýðskrum í sænsku þjóðfélagi. Viðhorfin náðu sem betur fer aldrei eins langt og sjá má í Danmörku í dag en þó voru þau að sumu leyti verri. Til dæmis grasseraði ofbeldi nýnasista á sænskum götum úti mun meira í Svíþjóð þessa tíma en heyrst hefur af í Danmörku á síðustu misserum.

Lasermannen skipar sér auðveldlega í hóp þess allra besta sem skrifað hefur verið undir merkjum hinnar svokölluðu Nýju blaðamennsku - þar sem að stílbrögðum skáldsögunnar er beitt til þess að varpa ljósi á raunverulega atburði. Lasermannen er skyldulesning allra sem gaman hafa af slíkum verkum og einnig þeirra sem vita vilja meira um afar nálæga fortíð í Svíþjóð - slæma tíma sem Svíar hafa lagt sig sérstaklega fram við að sópa sem mest og best yfir.


PS. Fyrir áhugasama má benda á að sýnd var leikin sjónvarpsþáttaröð, ásamt heimildarmynd, í Sænska ríkissjónvarpinu í haust sem byggir á bókinni og atburðum henni tengdri. Efni tengt þáttunum má finna á þessari vefslóð.