Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

15.7.06

På resa med Herodotos eftir Ryszard Kapuscinski

Ekki var hægt að láta hjá líða að renna í gegnum þessa nýjustu bók Ryszards Kapuscinski sem er tiltöluleg nýkomin út í sænskri þýðingu (enska þýðingin bíður útkomu síðar á þessu ári). Það kveður við nokkuð nýjan tón í þessari bók Kapuscinski enda má segja að sögumenn þessarar bókar séu tveir; Kapuscinski og svo forn-gríski sagnaritarinn Heródótus.

Kapuscinski heldur áfram í þessari bók að deila reynslusögum með lesendum sínum frá áratugalöngu starfi sínu sem fréttaritari víðs vegar um heiminn fyrir pólsku fréttaþjónustuna. Kapuscinski hefur í síðari bókum sínum, einkum í Imperium, færst nær sínum heimaslóðum og lýsingum á eigin uppruna og því heldur hann áfram í þessari nýju bók.

Við fáum að kynnast því hvernig fréttaritarinn Ryszard Kapuscinski varð til, allt frá fyrstu leiðöngrum hans til Indlands og Kína, þar sem hann er svo blautur á bak við eyrun að hann getur ekki einu sinni tjáð sig ensku (kannski það þurfi samt ekki að vera svo sjálfsagt að allir kunni endilega ensku) og er að mörgu leyti fullkomlega bjargarlaus eins og fugl sem dottið hefur úr hreiðri sínu.

Strax þarna í byrjun ferils síns er hinni stóru og miklu sagnabók Heródótusar gaukað að honum og upp frá því verður sagnaritarinn Heródótus honum að nokkru leyti fyrirmynd og bókina tekur hann með sér hvert á land sem er til þess að geta slegið upp í, sér til dægrastyttingar eða fróðleiks.

Kapuscinski reynir að sýna fram á andstæðurnar eða hliðstæðurnar milli þess sem fyrir augu Heródótusar bar á hans ferðum og þess sem Kapuscinski sjálfur sá svo á sömu slóðum. Oft fylgja í bókinni langar tilvitnanir í Heródótus og fannnst mér persónulega þar vera um frekar leiðinlega útúrdúra að ræða. Fór svo að lokum að ég hálfhljóp yfir alla þá kafla bókarinnar sem höfðu að geyma tilvitnanir eða umfjallanir um sögusvið lýsingar Heródótusar enda hef ég snöggtum minni áhuga á lýsingum á konungum og stríðum fyrir botni miðjarðarhafs á fornsögulegum tíma en ég hef á þeim lýsingum sem Kapuscinski dregur upp í bókum sínum af lífinu og tilverunni nú og í náinni fortíð.

Þessi flétta Kapuscinski af eigin lýsingum og frásögnum Heródótusar varð því þreytandi til lengdar og gekk einhvern veginn ekki upp að mínu mati. Lýsingar Kapuscinskis á eigin reynslu standa hins vegar alltaf fyrir sínu og það er hið góða við þessa bók. Heródótusar-flétturnar endalausu eru hins vegar mínus í kladdann, að mínu mati.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home