Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

15.7.06

Sólskinshestur eftir Steinunni Sigurðardóttur

Það er mikið fagnaðarefni að Edda-útgáfa (eða hvað þetta heitir nú formlega) skuli stíga það skref inn í nútímann, fyrst íslenskra forlaga, og fara að fordæmi erlendra kollega sinna með því að hefja útgáfu svokallaðra MP3-bóka - þ.e. hljóðbóka á MP3-formi sem fólk getur hlaðið beint inn á spilarana sína til þess að hlýða svo á sér til skemmtunar.

Fyrst í röð slíkra bóka er Sólskinshestur, nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur. Edda var svo rausnarleg að bjóða gestum heimasíðu sinnar að hlaða upplestrinum ókeypis niður í tilefni þessara tímamóta. Ég greip vitanlega tækifærið.

Ég hef aldrei lagt mig neitt sérstaklega eftir bókum Steinunnar. Fannst reyndar Tímaþjófurinn nokkuð góð bók þegar að ég las hana á sínum tíma en síðan hef ég lesið annað og reynt við enn annað en einhvern veginn ekki þá átt samleið með Steinunni.

Segja má það sama um Sólskinshest. Hún er að mörgu leyti afar vel skrifuð og sérstaklega finnst mér mikils verðar Reykjavíkurlýsingar bókarinnar. En samt náðu persónurnar ekki fullkomlega til mín en líklega er það bara vegna þess að ég hef einhvern veginn sjaldan getað samsamað mig þeim tóni sem einkennir bækur Steinunnar.

Þannig að þetta var að mörgu leyti ágætt en kannski bara ekki alveg fyrir minn snúð.

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast í lokin á tæknilegri hlið þessarar MP3-bókar en sú hlið fær algjöra falleinkunn. Vissulega ber að fagna því framtaki Eddu að gefa Sólskinshest út á þessu formi og ryðja þannig brautina. Hins vegar hefði maður haldið að við svona frumkvöðlaverk yrði vandað til verka og að engir hnökrar væru á upptökunni. Því fer hins vegar fjarri. Tæknilega hliðin einkennist nefnilega af einstöku metnaðarleysi og slóðaskap. Hljóðgæðin sjálf eru til dæmis af síðustu sort, eins og hljóðritað sé á gamalt segulbandstæki.

Verst er hins vegar að fulltrúar Eddu virðast ekki hafa ómakað sig við að fara yfir upptökuna áður en hún var sett út á vefinn því að víða í upptökunni má finna dæmi um að Steinunn mismæli sig eða ræski sig og geri síðan stutta pásu og byrji síðan aðeins fyrr í textanum sem hún var búin að lesa. Slíkar aðferðir þekkja allir rithöfundar sem lesið hafa upp á band og vita að þá má treysta á að tæknifólk muni klippa misfelluna úr svo út verði samfelldur lestur. Eddufólk virðist hins vegar ekki hafa hirt um að sinna þessu og þess í stað sent út í loftið óunnið eintak að upplestrinum.

Þetta slær mjög á annars gott framtak Eddu sem vonandi sýnir meiri metnað þegar að útgáfu næstu MP3-bókar kemur hjá útgáfunni

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home