Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

30.7.06

Stormur eftir Einar Kárason

Aftan á kiljuútgáfunni af Stormi eftir Einar Kárason sem ég fékk lánaða um daginn er vitnað í ritdómara sem segir eitthvað á þá leið að það sé langt síðan hann skemmti sér jafnmikið við lestur bókar. Ég segi nú eiginlega það sama bara. Maður er alltaf að lesa bækur sem hafa það helst upp á að bjóða að vera vel stílaðar, vel plottaðar, áhrifamiklar eða eitthvað þvíumlíkt en alltof sjaldan kemur það fyrir að til manns rata bækur sem maður flissar eða hreinlega hlær upphátt yfir. Það gerði Stormur hins vegar.

Sagan skýrir frá þessum sérstæða en þó einhvern veginn svo kunnuglega manni, Eyvindi Jónssyni Stormi sem lætur digurbarkalega um alla hluti en sjaldan ef þá nokkurn tíma stendur nokkuð á bak við orð hans. Týpan er, eins og ég segi, eiginlega alveg óhugnanlega kunnugleg: Allt það klandur og klúður sem Stormur kemur sér ævinlega í er alltaf einhvers konar alheimssamsæri hálfvita þessa heims að kenna en aldrei honum sjálfum. Hann drekkur of mikinn bjór, vinnur aldrei handtak en lætur konuna sína þess í stað sjá fyrir honum og heimilinu og það eina sem hann er góður í er að spila á kerfið til þess að að fá meiri bætur fyrir hitt og þetta.

Þrátt fyrir þetta er hann ætíð sárhneykslaður yfir því hvað allir hinir nenna lítið að leggja á sig, hristir hausinn yfir fíflum sem komið hafa honum í tóm vandræði (vandræði sem hann einn, og enginn annar, ber fulla ábyrgð á) og stundar illt umtal um allt og alla, sérstaklega þá sem gefist hafa upp á samskiptum sínum við hann.

Og að sjálfsögðu flytur þessi maður til Danmerkur til þess að sníkja meira þar. Já, eins gott að maður passi sig sjálfur á því að koma sér heim áður en maður breytist í eitt stykki Storm!

Bókin er sett upp þannig að persónurnar fá sína kafla á víxl þar sem þær segja frá sinni hlið atburða og þær persónur sem þar tala eru oft ekki síður kostulegar en aðalpersónan Stormur.

Það rifjast upp fyrir manni við lestur þessarar bókar hversu mikill meistari Einar Kárason er í því að draga upp kómískar en þó einhvern veginn svo dæmigerðar persónulýsingar á týpum sem allir þekkja. Það er að minnsta kosti einn í hverri stórfjölskyldu eða vinakreðsu eins og Stormur og það sama á við um hina karakterana. Sannast þar hið fornkveðna að karakterarnir hans Einars eru: ,,funny because its true", svo vitnað sé í sjálfan Hómer (Simpson sko!).

Allt lofið og prísið á bókarkápunni er því barasta dagsatt: Stormur er nefnilega sannarlega fyndnasta og gleðilegasta bók sem ég hef lengi lesið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home