Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

27.8.05

The New York Trilogy eftir Paul Auster

Paul Auster var einn af þessum höfundum sem vinir mínir sem lögðu stund á bókmenntafræði lágu gjarnan yfir. Allt upp frá því vakti það forvitni mína að komast að því hvað byggi í þessum greinilega geysimerkilega Auster sem allir vildu kveðið hafa. Fyrst svalaði ég reyndar forvitninni fyrir svo sem eins og þremur-fjórum árum síðan þegar að ég las Timbuktu eftir hinn títtnefnda Auster. Sú bók féll mér hins vegar ekkert sérstaklega í geð en svo fór ég nú reyndar að heyra (sjálfsagt frá einhverjum hinna bókmenntafræðimenntuðu kunningja minna) að Timbuktu væri nú líka frekar slöpp.

Forvitninni var því í raun engan veginn svalað og í vor smellti ég mér loks á New York-þríleikinn (City of Glass, Ghosts og The Locked Room) sem hugsanlega er hans þekktasta verk til þessa. New York-þríleikurinn kom raunar út í þremur bókum á íslensku hjá Bjarti fyrir 10-15 árum síðan. Um er að ræða þrjár sögur, hver um það bil 100 blaðsíður, sem mynda eina heild. Í fyrstu kunna rofin á milli sagnanna að virðast það mikil að réttast sé að tala um þrjár aðskildar sögur með þó svipaðan útgangspunkt en eftir því sem lengra líður á þríleikinn verður manni ljóst að í rauninni er um eina sögu að ræða - í þremur hlutum.

Paul Auster leikur sér að klassíska spæjarasöguforminu í þríleiknum þar sem New York - mekka spæjarasögunnar - er auðvitað sjálfkjörið sögusvið. Allar bera sögurnar sterk einkenni spæjarasögunnar klassísku en eru þó allar um leið mjög óhefðbundnar sem slíkar. Hvorki spæjararnir eða viðfangsefnin eru hefðbundins eðlis og allir eiga spæjararnir sameiginlegt að vera hálfgerðar andhetjur sem ekki herðast við hverja raun heldur - þvert á móti - lyppast niður þar til verkefnið svo gott sem ríður þeim að fullu.

Fyrsta sagan á sér stað nálægt samtímanum: New York á 9. áratugnum þar sem glæpasagnahöfundur lendir óvænt í hlutverki spæjara og Paul Auster sjálfur kemur meðal annars fyrir sem aukapersóna. Í næstu sögu er farið aftur til fimmta áratugarins og ungur spæjari sem illa veldur starfi sínu er í aðalhlutverki. Í síðustu sögunni er það svo maður sem lifir lífi sínu í skugga annars manns sem þó týndur og tröllum gefinn.

Þríleiknum vex ásmegin eftir því sem á hann líður og mér þótti síðasti hlutinn áberandi bestur enda gegnir hann lykilhlutverki í heildarmyndinni, annar hlutinn þótti mér hins vegar sístur. Auster olli mér ekki vonbrigðum í þessu þekkta verki sínu - afar svöl bók og afar flottur höfundur sem ég held örugglega áfram að lesa eftir þessa mjög svo jákvæðu lestrarreynslu.

10.8.05

Chronicles: Volume One eftir Bob Dylan

Hvað er svalara en Sean Penn að lesa endurminningar Bob Dylans? Ýmislegt, svosum - en ansi svalt er það nú samt sem áður. Undanfarið hef ég einmitt verið að hlýða á Sean lesa upp fyrsta bindi Krónika Bob Dylans sem komu út í bókarformi síðasta haust.

Ég minnist þess að hafa í upphafi verið tortrygginn á endurminningar Bob Dylans skrifaðar af honum sjálfum. Hann hefur verið æði misjafnur svona á síðari tímum, karluglan, og mínir fordómar gerðu ráð fyrir því að ef til vill væri hann orðinn einum of sósaður í hausnum eftir allt hassið gegnum tíðina til þess að hann gæti haldið almennilega þræði og hvað þá verið góður sögumaður. En lengi lifir í gömlum glæðum.

Krónikan fannst mér nefnilega þrælskemmtileg á að hlýða og Bob Dylan er þar aldeilis í essinu sínu - gott ef hann er ekki bara á betri sprett sem rithöfundur en tónlistarmaður um þessar mundir ef eitthvað er að marka þessa bók. Dylan sviptir lesandanum fram og aftur í tíma en dvelur þó einkum við þau ár sín í bransanum þegar hann er að hasla sér völl sem tónlistarmaður.

Af minningum hans frá öðrum tímabilum er sérstaklega skemmtilegt að lesa um hversu illa honum virðist hafa verið við að vera gerður að einhvers konar boðbera hippakynslóðarinnar en honum finnst hann vera alveg hryllilega á skjön við þann hóp og vill ekkert af honum vita - vill bara fá að vera í friði að gera sína tónlist og sinna sinni fjölskyldu. Reyndar verð ég að vera smá fýlupúki og segja það að ég kaupi ekki alveg þessa síðari tíma lýsingu Dylans á sjálfum sér. Mér finnst ekki ólíklegt að honum þyki þessi tími ef til vill eitthvað kjánalegur svona eftir á og vilji þess vegna gera sem minnst úr þátttöku sinni í tíðarandanum. En sjálfsagt stenst þetta þó að mestu leyti hjá kallinum.

Þannig að fyrsta bindi Krónikanna kom mér skemmtilega á óvart og lesturinn hans Seans Penn var ansi flottur. Eina sem ég lét fara í taugarnar á mér er að þetta er stytt útgáfa - óþolandi að fá ekki bara alla bókina heldur einhverja klippta útgáfu. Geri nú samt ráð fyrir að litlu hafi verið sleppt, svona þegar ég ber saman bókarþykktina og þann tíma sem hún tók í lestri.

8.8.05

Fotbollskriget eftir Ryszard Kapuściński

Fótboltastríðið er titill á einu greinasafna pólska blaðamannsins Ryszard Kapuściński sem upphaflega kom út á frummálinu 1988 þegar höfundurinn hafði fyrir nokkru skipað sér í flokk frægustu og virtustu stríðsfréttablaðamanna heimsins. Titillinn vísar í hið skammvinna stríð sem braust út milli Hondúras og El Salvador 1969 þar sem knattspyrnuleik milli þjóðanna var kennt um að vera dropinn sem fyllti mælinn í stríðsæsingi ríkjanna á milli. Raunar er hálfmisvísandi að velja þessari bók þennan titil vegna þess að sögusvið þessarar bókar er, eins og flestra verka Kapuścińskis, einkum Afríka. Mér sýnist raunar, þegar ég renni yfir það svona eftir á, að einungis tveir af um það bil tuttugu köflum bókarinnar víki atburðum utan Afríku. En hvað um það.

Ryszard Kapuściński skýrir hér frá atburðum og aðstæðum í stríðshrjáðum ríkjum þriðja heimsins á jafnsannfærandi og myndrænan hátt og í greinasafninu Íbenholt sem ég tók hér til umfjöllunar fyrir skemmstu. Munurinn á bókunum liggur fyrst og fremst í því að Kapuściński er mun fremur í hlutverki stríðsfréttaritarans í þessari bók en í Íbenholti þar sem meira var um mannlífslýsingar og svona umhverfisstemmur einhvers konar. Í Fótboltastríðinu skeytir Kapuściński síðan haganlega inn hugleiðingum hér og þar í búningi „uppkasti bókar sem hefði mátt skrifa“.

Meðal þess sem Kapuściński er skýrir frá í þessari bók er baksaga Kwames Nkrumas, sjálfstæðishetju Ghana og í raun Afríku allrar, frásögn af Lumumba í Kongó, fangelsi og dauðadómur höfundar í sama landi, kvenréttindabarátta í Tanganyíku, grimm aðskilnaðarstefna í Suður-Afríku, valdarán í Alsír, tvískipting Kýpur, prjál í Suður-Ameríku og vitanlega - fótboltastríðið í El Salvador og Hondúras.

Alls staðar er Kapuściński sjónarvottur heimsviðburða og lýsir þeim oft úr kvalafullri nálægð þar sem særðir líkamar og örvæntingarfull fórnarlömb blasa við honum fremur en loftmyndir af sundursprengdu umhverfi, eins og sjónarpsáhorfendur eru vanir. Hann í miðri hringiðu þar sem allt einkennist af örvinglun og máttleysi yfir eyðandi öflum allt í kring og hann er oft ekki síður í hættu en aðrir í kringum hann.

En þrátt fyrir hinar hryllilegu lýsingar Kapuścińskis af aðstæðum hér og þar um þá hluta heimsins sem verst eru leiknir af stríðum og stöðuga baráttu höfundarins sjálfs við að halda lífi við tvísýnar aðstæður á hverjum degi þá er þær kannski merkilegastar í þessari bók lýsingar Kapuścińskis á ofurþránni til þess að snúa þó alltaf aftur í þessar verstu hugsanlegu aðstæður. Lýsingarnar á því ólæknandi óþoli og dauflyndi sem Kapuściński fyllist þegar að hann er heima í Póllandi og þráir ekki heitar en að komast aftur í hættu og tvísýnu á stríðshrjáðum svæðum til að skýra frá því sem fyrir augu ber eru kunnuglegar frá öðrum stríðsfréttariturum sem erfitt eiga með að venjast fásinninu heima við eftir á. Þær eru þó samt sem áður sjálfsagt framandi flestum lífhræddum Vesturlandabúum sem unna örygginu heima við betur en óöryggi og lífshættu á stríðshrjáðum slóðum.

Kapuściński og öðrum ofurhugum eigum við Vesturlandabúar hins vegar það að þakka að vera tilbúnir til þess að leggja það á sig að stefna lífi sínu svo til daglega í voða til þess eins að miðla okkur hinum þeim sársauka og þeirri ringulreið sem ríkir á þeim svæðum heimsins sem ekki njóta þeirra forréttinda að búa yfir þeim stöðugleika og ríkidæmi sem við gerum.

Íslenski draumurinn eftir Guðmund Andra Thorsson

Guðmundur Andri kláraði fyrir nokkrum dögum að lesa fyrir mig Íslenska drauminn sinn meðan að ég arkaði um miðbæinn, aðallega í og úr vinnu. Í fyrstu var ég aðallega gripinn sömu tilfinningu og þegar að ég gerði áhlaup á Náðarkraft hans sem kom út fyrir þarsíðustu jól: einhvers konar óþol var það líkast til. Það er þetta séreinkenni bóka Guðmundar Andra (fyrir utan Íslandsförina reyndar) að draga upp svipmyndir og setja fram hugleiðingar í formi skáldsögu sem getur verið svolítið seintekið og gerði það að verkum að Náðarkraftur hálfpartinn dagaði upp á náttborðinu hjá mér. Ég sýndi Íslenska draumnum hins vegar örlítið meiri þolinmæði og vissulega borgaði það sig því að bókin sótti í sig veðrið eftir því sem á leið.

Íslenski draumurinn er mjög karlkyns skáldsaga. Miðpunkturinn er menntaskólaárin, kunnuglegt stef úr skáldsögum '68 kynslóðarinnar, en Guðmundur Andri tilheyrir hins vegar næstu kynslóð á eftir - þeirri sem útskrifast tíu árum síðar - og dregur upp mynd af henni og það er í fyrsta lagi nokkuð forvitnilegt frávik frá skáldsögum kynslóðarinnar á undan. Annað sem mér þykir Guðmundi Andra takast með miklum sóma í þessari bók er að ljá menntaskólaárunum þann lúðalega blæ sem þau eiga skilið í stað hinnar ósannfærandi hetjukenndu fortíðarglýju sem oft einkennir menntaskólaárin í skáldsögum yfirleitt. Það rímar alla vega ágætlega við mína reynslu að fá ár séu jafn lúðaleg og menntaskólaárin.

Tónninn og talandinn er líka skemmtilega bjálfalegur og í snjallri mótsögn við hátíðleik eða þá hástemmdar áætlanir sögupersóna. Þá eru sömuleiðis dregnar upp skýrar andstæður á milli menntaskólakynslóðar áttunda áratugarins og kynslóðar foreldra þeirra og vonir þeirra og skipbrot.

Sem sagt í heild bara nokkuð fín bók á að hlýða svona á röltinu upp og niður öngstræti hundraðogeins.