Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

25.5.06

Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason

Það skal viðurkennast hér og nú að ég hef lengst af staðið á hliðarlínunni eða sveiflast á milli staðfastra sjónarmiða andstæðra fylkinga í málefnum virkjana á Austurlandi. Heldur þó verið á bandi umhverfissinna en þó verður að segjast að maður hefur ekki verið alls ósnortinn af málstað Austfirðinga sem vilja fá atvinnu og búsetugrundvöll heim í hérað. Þá vil ég meina að sú rómantíska þjóðernisremba mótmælenda virkjananna hafi framkallað hjá mér þá ógleði og allir leikrænu ljóðalestrarnir og gjörningarnir þann aulahroll að ég hef ekki fundið hjá mér jafnsterka hvöt til að tilheyra þeim hópi og ella hefði kannski verið. Ég man einmitt eftir að hafa fylgt fólki í blindni á einn slíkan mótmælendafund í Borgarleikhúsið hér um árið og tuldraði þá fyrir sjálfum mér: af hverju getur ekkert af þessu liði mótmælt virkjuninni með rökum í stað gjörninga og þjóðrembulegs fjallkonubulls?

Nú eru rökin hins vegar komin fram og efasemdum mínum hefur verið varpað út í buskann. Ég er búinn að taka skýlausa afstöðu. Ég er á móti! Ástæðan: lestur á Draumalandi Andra Snæs Magnasonar.

Það þarf nú kannski ekki að tíunda mikið innihald bókar Andra Snæs eða þann málstað sem bókin stendur fyrir. Hann hefur oftlega verið kynntur fyrir Íslendingum í fjölmiðlum, á fjöldamörgum fyrirlestrum sem Andri Snær hefur haldið í kjölfar útkomunnar og svo eru auðvitað 6000 manns búin að kaupa bókina þegar að ég vissi síðast og þá kannski 10-15.000 búin að lesa ef maður gerist nú svolítið djarfur og ímyndar sér að fleiri en einn lesi hvert keypt eintak. Og fyrir þá sem ekki vita um hvað bókin er þá segi ég: Lesið hana bara!

Með Draumalandinu opinberar Andri Snær á snilldarlegan hátt þá fádæma vitleysu sem íslenskur áliðnaður er. Áliðnaðurinn rústar landinu á einstaklega gróteskan hátt og setur efnahagslífið á hvolf en skapar samt nánast enga vinnu (ég þarf því ekki lengur að burðast með þau mótrök fyrir hönd Austfirðinga) í hlutfalli við það. Hefur í það minnsta engin áhrif á atvinnuástandið í heild. Hana er ekki hægt að réttlæta með því göfuga verkefni að Ísland sé að leggja fram lífsnauðsynlegar byrgðar af áli fyrir heimsbyggðina vegna þess að þegar er alla þörf heimsins fyrir ál að finna ónýtta á ruslahaugum víðs vegar um veröldina. Endurvinnsla á málminum væri því nærri lagi.

Eftir stendur því algjörlega ástæðulaus og óafturkræf eyðilegging á landinu. Hún skapar engin störf svo um muni, hún snýr ekki við byggðaþróun og hún sér heimsbyggðinni ekki fyrir lífsnauðsynlegum álbyrgðum. Eftir stendur því það hugtak sem stundum er notað yfir ástæðulausa eyðileggingu; nefnilega vandalismi.

Andri Snær hefur undirbyggt málflutning sinn með traustum stoðum. Hann er vel var við þá gagnrýni virkjanasinna að benda á úrræðaleysi andstæðinganna þegar að þeir segja ,,eitthvað annað bara" þegar þeir eru spurðir hvað eigi þá að finna fyrir fólkið að gera. Andri Snær sýnir nefnilega auðveldlega fram á að virkjanavandalisminn er nefnilega í rauninni hið eina og sanna ,,eitthvað annað" sem stjórnvöld hafa gripið til í skammsýni sinni og tröllslegri fortíðarsýn í stað þess að virkja fólk til mennta, frumkvöðlastarfs og framkvæmdahyggju.

Nú er það svo að dæmin um stórgróða af íslensku hugviti eru ekki bara úr lausu lofti gripin. Allir þekkja hina svokölluðu íslensku útrás fjármálafólks sem framsóknarmenn allra flokka hefðu sjálfsagt blásið af áður en hún gerðist sem skýjaborgir sem ekkert ættu skylt við íslenskan raunveruleika. Þrátt fyrir að við séum í fremsta flokki yfir þjóðir í velsæld, tæknivæðingu og öðru því sem gott telst þá er framsóknareðlið enn ríkt í íslenskum stjórnmálamönnum: þessi durgslega og heimóttarlega sýn á eigin getu sem byggist á þeirri fáránlegu minnimáttarkennd að ein menntaðasta og framþróaðasta þjóð heimsins geti ein - og ólíkt öðrum þjóðum á svipuðum stalli - bara alls ekki byggt velsæld sína á menntun sinni og hugviti.

Þess í stað sé nauðsynlegt að fara sömu leiðir og vanþróuðustu þjóðir heims sem enn eiga almennilega eftir að iðnvæðast og fara að stunda þungaiðnað með ódýru vinnuafli! Árið 2006! Hjá menntaðri og vel stæðri þjóð!

Andir Snær murkar svoleiðis lífið úr rökum virkjanasinna að líkist helst rothöggi í fyrstu lotu í boxbardaga. Virkjanasinnar eru skildir eftir orðlausir, rökin er sölluð niður. Enda hefur þögn bæði stjórnvalda, Landsvirkjunar og virkjanasinna í kjölfar útkomu bókarinnar verið æpandi og manni dettur helst í hug að þeim hafi dottið í hug það sem í raun kannski er best fyrir þá að gera í stöðunni: Þegja bókina einfaldlega í hel og vona að hún týnist í umræðunni.

En Draumalandið mun ekki týnast. Það hefur þegar unnið sitt góða og þarfa verk. Það hefur snúið villuráfandi sauðum eins og mér til staðfastrar sannfæringar eftir afvegaleiðingu þjóðrembumótmælanna, ofleiknu gjörninganna og tilgerðarlegu ljóðaupplestranna.

Draumalandið er bók sem manni ber hreinlega þjóðfélagsleg skylda til þess að setja ekki upp í hillu að loknum lestri heldur á maður að láta hana ganga í trúboði gegn framóknarmennskunni afturhaldssömu þangað til að allir eru búnir að lesa.

Andri Snær á skilið sín Nóbelsverðlaun í bókmenntum, hagfræði, stærðfræði og öllu hinu líka fyrir þessa lífsnauðsynlegu sjálfshjálparbók fyrir hræddu þjóðina.

Skyldulesning!

24.5.06

Saturday eftir Ian McEwan

Ian McEwan er að verða einn af mínum uppáhaldshöfundum, þrátt fyrir að ég sé nú einungis nýbúinn að ljúka annarri bókinni minni eftir hann. Sjálfsagt felst aðdáunin að miklu leyti í þeim heljartökum sem McEwan hefur á stíl og framvindu sagna sinna en ég er samt sem áður á því að mest dáist ég að því lágstemmda yfirbragði sem einkennir bækur McEwans þar sem margt kraumar þó undir niðri. Ekki ætla ég nú að fara offari í líkingum við uppáhaldshöfund minn á íslensku, Braga Ólafsson, en þó eiga þeir þetta sameiginlegt með lágstemmda yfirbragðið með þunga undirliggjandi öldu.

Saturday vakti sérstaka eftirvæntingu í huga mínum þar sem að bókin er hluti af því sem kalla má ,,eftir 11. september"-list (post-9/11 á ensku) og snýst um viðbrögð listamanna og úrvinnslu á þeim atburðum og þeirri heimssýn sem upp hefur sprottið í kjölfar hryðjuverkanna afdrifaríku haustmorgun einn árið 2001. Lítið hefur farið fyrir slíkum verkum í íslenskum bókmenntum, Eiríkur Norðdahl sagði reyndar að Hugsjónadrusla hans félli í þennan flokk en ég greindi hins vegar allt önnur áhrif í þeirri bók.

,,Post-9/11"-einkenni Saturday felast einkum í þeirri undirliggjandi hræðslu og öryggisleysi sem búið hefur um sig í huga heilaskurðlæknisins Henry Perowne þrátt fyrir að allt gangi honum í haginn, bæði í einkalífi og starfi. Hann hefur einhverja ónotatilfinningu fyrir því að hann lifi við svikalogn og að hvenær sem er geti farið að hvessa allt í kringum hann þannig að allt fjúki um koll.

Saturday lýsir á nostursamlegan hátt laugardegi í lífi heilaskurðlæknisins þar sem McEwan beitir nánast ,,proustískri" nákvæmni til þess að varpa ljósi á hvern atburð dagsins. Og svo að Braga Ólafssyni sé nú aftur blandað í umfjöllunina þá kemur það skýrt fram bærði í Saturday og Hvíldardögum Braga að það getur oft verið mun flóknara að takast á við lífið á frídögum en á öðrum tímum. Dagur Perownes verður nefnilega mun átakanlegri og illviðráðanlegri en hann hafði nokkurn tíma gert sér í hugarlund í bítið þegar að hann reis úr rekkju.

McEwan lýsir viðburðum laugardagsins 15. febrúar 2003. Dagsetningin er fjarri því að vera tilviljunarkennd vegna þess að á þessum degi fóru fram fjölmennustu mótmæli í sögu Bretlands þegar að hundruð þúsunda (eða jafnvel á aðra milljón, alveg eftir því hverjir töldu) göngufólks þrammaði um stræti Lundúna til að mótmæla fyrirhugaðri innrás Bandamanna á Írak. Þrátt fyrir að Perowne telji sig ekki eiga beint erindi í gönguna þá setur hún mikið mark á atburðarás dagsins hjá honum.

Mótmælin verða einnig til þess að koma róti á huga Perownes. Perowne er því (æskilega) marki brenndur að því meira sem hann kynnir sér rökræður þeirra sem mæla með og á móti innrásinni þá vakna einungis fleiri spurningar og efinn eykst um að til sé einhver stóri-sannleikur eða afdráttarlaus afstaða. Hann ver því á mis málstað fylgjenda og andstæðinga innrásarinnar eftir því við hvern hann ræðir og eftir hvaða rökum hann veltir upp hverju sinni.

Kannski er djarft að halda eftirfarandi fram en það er engu að síður freistandi að velta því upp að þessar vangaveltur endurspegli efasemdir höfundarins um að rökræðurnar snúist um rétt gegn röngu, gott gegn illu, svart gegn hvítu. Hvað sem því líður þá er ekki ólíklegt að margir lesendur geti fundið sig í svipaðri aðstöðu. Hann á nefnilega glettilega oft við gamall botn úr íslenskri ferskeytlu: ,,Sá er viss í sinni sök/sá er ekkert skilur". Því meira sem fólk reynir að komast framhjá alhæfingum og slagorðum annarra í afstöðu sinni og reynir í stað að byggja upp eigin afstöðu, því líklegra er að fleiri spurningar vakni á leiðinni en að svör fáist.

Þetta er vel gert hjá McEwan. Það hefði verið lítið mál fyrir hann að búa til einhvern móralskan besserwisseratón þar sem Blair er kallaður bjáni en mótmælendur eru hafðir upp til skýjanna. Þess vegna verður ,,post-9/11"-þáttur bókarinnar á einhvern hátt ábyrgur og marktækur.

Eins og í Amsterdam, þá hefur McEwan greinilega lagt nokkuð á sig til þess að kynnast hugarheimi og vettvangi þeirrar atvinnugreinar sem aðalpersónan stundar. Þó að ég heillist persónulega meira af hugarheimi tónskáldsins í Amsterdam en heilaskurðlæknisins í Saturday þá er lýsingin ekki síðri og til meðmæla skal teljast að höfundi tókst að framkalla klígju hjá mér með mjög svo myndrænum lýsingum af heilauppskurðum.

Margt fleira gott væri hægt að segja um Saturday, bæði atburðarásina, uppbyggingu og bakland bókarinnar. Hér verður þó látið staðar numið en látið nægja að mæla mjög með Saturday. McEwan leggur hér fram mjög mikilvægt og gott framlag skáldsögunnar til umræðunnar um hina hröðu og oft miskunnarlausa atburðarás sem árásin á Tvíburaturnana hefur leyst úr læðingi.

10.5.06

Homage to Catalonia eftir George Orwell

Það getur verið hættulegt að kaupa gagnrýnislaust hina alteknu söguskoðun sigurvegaranna. Í tilviki spænsku borgarastyrjaldarinnar voru það að vísu ekki sigurvegarar styrjaldarinnar sjálfrar sem hlutu góðu eftirmælin en þeir sigurvegarar voru hins vegar hluti af flokki fasískra alræðisafla sem nokkru síðar hlutu sín eilífu og verðskulduðu slæmu eftirmæli.

Í tilviki spænsku borgarastyrjaldarinnar eru það hin svokölluðu lýðræðisöfl sem hafa fengið stimpilinn ,,góðu kallarnir" í söguskoðun undanfarinna áratuga. Slík gagnrýnislaus söguskoðun er hins vegar engum holl, sérstaklega ekki í stríði þar sem reglan er yfirleitt sú að fáir eru jafn göfugir og góðir og þeir láta líta út fyrir eftir á.

Í þessu tilviki er því hressandi að kynnast hlið George Orwells í bók hans Homage to Catalonia þar sem hann segir frá þátttöku sinni í spænsku borgarastyrjöldinni þar sem að hann barðist með POUM-sveitum stjórnleysingja. Orwell gerir afar vel í þessari bók, sérstaklega með hliðsjón af ritunartíma sögunnar (lok 4. áratugarins), þegar að hann sýnir fram á góðar og slæmar hliðar allra fylkinga. Stríðið er því ekki svarthvítt í augum Orwells og lýðræðisöflin eru oft ekki hótinu skárri en fasistarnir í stefnu sinni og baráttuaðferðum.

Það sem dregur úr gæðum þessarar bókar er hin sérbreska kaldhæðni sem oflitar bókina og gefur henni yfirborðskenndan brag þar sem einlæg frásögn hefði átt mun betur við.

5.5.06

The File eftir Timothy Garton Ash

Timothy Garton Ash had a rare opportunity to review his youth. Adding to his diaries as sources of himself as a young man, there existed an outsider’s view also – the view of a secret-police in an autocracy, even more detailed about himself at many points than his own remarks on his experiences at the time. These were the STASI-files of the East-German secret police from the time of Garton Ash’s stay in East-Germany in the late 1970s and early 1980s. After the collapse of the communist regime, Ash returns to have a look at his file, now being made available. The result of his findings, and his considerations related to them, is his book, The File: A Personal History.

Garton Ash originally moves to Berlin to study Nazi-Germany but soon his interest turn to another German autocracy, current and only across a wall of concrete dividing his city of residence. He therefore accepted a scholarship and moved to the eastern part of Berlin where he not only studied history but also became part of it. STASI soon began to follow his everyday life in East-Berlin. STASI’s successful methods of hysterical investigation of its citizens and visitors not only included the employees of the secret police but also the so-called ‘IM’ (“Inoffiziele Mitarbeiter”); members of the general public that would, sometimes with hesitancy, sometimes not, report to STASI about their fellow citizens.

Garton Ash describes how some of the people that he communicated with at the time turned out to be IMs that reported on him to STASI. Fortunately Garton Ash is not one of those unfortunates that found out that the people they had the most intimate relationship with, even spouses, had been the ones that reported on them. Still, such horrible examples fill Garton Ash with suspicion which leads him, for example, to wonder whether a former girlfriend in East-Berlin was in fact a Trojan horse for the STASI to have him under further supervision.

STASI’s investigation of Garton Ash resulted in a 325-page file, which is rather minimal in comparison to the usual length of files. The files reflected well the hysterical occupancy of the totalitarian state to keep an eye of the population. The extent of STASI was vast; in the final years of East-Germany STASI employed 90,000 people full-time and had, in addition, 110,000 IMs. No wonder that unemployment became a problem in the Eastern part after reunification!

Garton Ash’s approach is mostly the one of understanding and forgiveness. He tries to realize the difficulties of having an individual will in a strong totalitarian system that does not tolerate disobedience to the state’s policy or rules. He is lucky enough to be a sort of a ‘free rider’ for the most of his time behind the Iron-Curtain. That might explain why he does not have the same difficulties of understanding and forgiving as he might have if the reports on him had led to more serious actions than a ban from visiting the Communist bloc for some time.

He, actually, later experiences the real anxiety himself when he falls in love with a local girl in Poland and therefore becomes included in the fate of people who live by the everyday-fear of its totalitarian authorities. If this would have happened sooner and the reports on Garton Ash would have resulted in affecting his fiancée or their relationship in a harmful way, had he been as ready to understand and forgive? It is not easy to say.

The File makes one think about the difficult choices people in totalitarian states have to make between collaboration and resistance. It is hard for those who have never experienced a dictatorship to realize how difficult it can be to swim against the tide, especially when one’s loved ones may suffer harshly from it. For us, those who are brought up in democracies, it might be more relevant to use this book as an example about how we will end up if countries around the world pursue their post-9/11 ongoing policy of increased supervision of the public. The governments of today claim to pursue this policy of supervision for the “general good”. We should bear in mind that so did STASI.

Italien eftir Tomas Lappalainen

Viðeigandi að renna í gegnum eina bók um Ítalíu meðan á Ítalíudvöl stendur. Ég kippti með mér bók eftir Svíann Tomas Lappalainen og reyndist hún vera hin fróðlegasta og ánægjulegasta lesning. Bókin er ekki ferðabók heldur beinir hún sjónum sínum að ítölsku þjóðfélagi og rótum þess.

Það sem mest kom á óvart við lestur þessarar bókar er hversu ítalska þjóðin er í raun veik eining og nýtilkomin. Lappalainen segir til dæmis frá því að það hafi ekki verið fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar sem að meirihluti Ítala töluðu ítölsku. Þjóðin er nýleg og tilbúin heild sem samanstendur af fólki sem frekar virðist líta á sig sem fulltrúa sinna héraða og landshluta en þjóðar sinnar. Það eru auðvitað ekki nema 150 ár síðan að Ítalía var búin til þannig að ekkert af þessu ætti svo sem að koma á óvart - þó að það geri það nú samt.

Margt fleira var forvitnilegt og skemmtilegt í þessari bók. Mæli með henni fyrir Ítalíufara sem vilja fræðast ögn um gestgjafa sína.