Bókabloggið er flutt

Sjá: bokabloggid.wordpress.com

30.7.06

Stormur eftir Einar Kárason

Aftan á kiljuútgáfunni af Stormi eftir Einar Kárason sem ég fékk lánaða um daginn er vitnað í ritdómara sem segir eitthvað á þá leið að það sé langt síðan hann skemmti sér jafnmikið við lestur bókar. Ég segi nú eiginlega það sama bara. Maður er alltaf að lesa bækur sem hafa það helst upp á að bjóða að vera vel stílaðar, vel plottaðar, áhrifamiklar eða eitthvað þvíumlíkt en alltof sjaldan kemur það fyrir að til manns rata bækur sem maður flissar eða hreinlega hlær upphátt yfir. Það gerði Stormur hins vegar.

Sagan skýrir frá þessum sérstæða en þó einhvern veginn svo kunnuglega manni, Eyvindi Jónssyni Stormi sem lætur digurbarkalega um alla hluti en sjaldan ef þá nokkurn tíma stendur nokkuð á bak við orð hans. Týpan er, eins og ég segi, eiginlega alveg óhugnanlega kunnugleg: Allt það klandur og klúður sem Stormur kemur sér ævinlega í er alltaf einhvers konar alheimssamsæri hálfvita þessa heims að kenna en aldrei honum sjálfum. Hann drekkur of mikinn bjór, vinnur aldrei handtak en lætur konuna sína þess í stað sjá fyrir honum og heimilinu og það eina sem hann er góður í er að spila á kerfið til þess að að fá meiri bætur fyrir hitt og þetta.

Þrátt fyrir þetta er hann ætíð sárhneykslaður yfir því hvað allir hinir nenna lítið að leggja á sig, hristir hausinn yfir fíflum sem komið hafa honum í tóm vandræði (vandræði sem hann einn, og enginn annar, ber fulla ábyrgð á) og stundar illt umtal um allt og alla, sérstaklega þá sem gefist hafa upp á samskiptum sínum við hann.

Og að sjálfsögðu flytur þessi maður til Danmerkur til þess að sníkja meira þar. Já, eins gott að maður passi sig sjálfur á því að koma sér heim áður en maður breytist í eitt stykki Storm!

Bókin er sett upp þannig að persónurnar fá sína kafla á víxl þar sem þær segja frá sinni hlið atburða og þær persónur sem þar tala eru oft ekki síður kostulegar en aðalpersónan Stormur.

Það rifjast upp fyrir manni við lestur þessarar bókar hversu mikill meistari Einar Kárason er í því að draga upp kómískar en þó einhvern veginn svo dæmigerðar persónulýsingar á týpum sem allir þekkja. Það er að minnsta kosti einn í hverri stórfjölskyldu eða vinakreðsu eins og Stormur og það sama á við um hina karakterana. Sannast þar hið fornkveðna að karakterarnir hans Einars eru: ,,funny because its true", svo vitnað sé í sjálfan Hómer (Simpson sko!).

Allt lofið og prísið á bókarkápunni er því barasta dagsatt: Stormur er nefnilega sannarlega fyndnasta og gleðilegasta bók sem ég hef lengi lesið.

25.7.06

Steget efter eftir Henning Mankell

Ég var farinn að fá hundleið á þessum Mankell-bókum, og glæpasögum yfirleitt, þegar ég ákvað þó að prófa að hlusta á þessa. Hún er númer sex eða sjö af Wallander-sögunum og mér til undrunar og mikillar gleði þá var hún mun betri en margar af þeim sem ég hef lesið. Eins og ég hef áður talað um, þá er ég reyndar búinn að finna fullkomna aðferð til að njóta glæpasagna, þ.e. að hlusta á þær í staðinn fyrir að lesa þær. Glæpasögur krefjast nefnilega ekki meiri athygli en svo að maður getur vel gert eitthvað á meðan að maður fylgist með framvindunni.

Sem sagt meðal þeirra bestu í Wallander-seríunni.

15.7.06

Sólskinshestur eftir Steinunni Sigurðardóttur

Það er mikið fagnaðarefni að Edda-útgáfa (eða hvað þetta heitir nú formlega) skuli stíga það skref inn í nútímann, fyrst íslenskra forlaga, og fara að fordæmi erlendra kollega sinna með því að hefja útgáfu svokallaðra MP3-bóka - þ.e. hljóðbóka á MP3-formi sem fólk getur hlaðið beint inn á spilarana sína til þess að hlýða svo á sér til skemmtunar.

Fyrst í röð slíkra bóka er Sólskinshestur, nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur. Edda var svo rausnarleg að bjóða gestum heimasíðu sinnar að hlaða upplestrinum ókeypis niður í tilefni þessara tímamóta. Ég greip vitanlega tækifærið.

Ég hef aldrei lagt mig neitt sérstaklega eftir bókum Steinunnar. Fannst reyndar Tímaþjófurinn nokkuð góð bók þegar að ég las hana á sínum tíma en síðan hef ég lesið annað og reynt við enn annað en einhvern veginn ekki þá átt samleið með Steinunni.

Segja má það sama um Sólskinshest. Hún er að mörgu leyti afar vel skrifuð og sérstaklega finnst mér mikils verðar Reykjavíkurlýsingar bókarinnar. En samt náðu persónurnar ekki fullkomlega til mín en líklega er það bara vegna þess að ég hef einhvern veginn sjaldan getað samsamað mig þeim tóni sem einkennir bækur Steinunnar.

Þannig að þetta var að mörgu leyti ágætt en kannski bara ekki alveg fyrir minn snúð.

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast í lokin á tæknilegri hlið þessarar MP3-bókar en sú hlið fær algjöra falleinkunn. Vissulega ber að fagna því framtaki Eddu að gefa Sólskinshest út á þessu formi og ryðja þannig brautina. Hins vegar hefði maður haldið að við svona frumkvöðlaverk yrði vandað til verka og að engir hnökrar væru á upptökunni. Því fer hins vegar fjarri. Tæknilega hliðin einkennist nefnilega af einstöku metnaðarleysi og slóðaskap. Hljóðgæðin sjálf eru til dæmis af síðustu sort, eins og hljóðritað sé á gamalt segulbandstæki.

Verst er hins vegar að fulltrúar Eddu virðast ekki hafa ómakað sig við að fara yfir upptökuna áður en hún var sett út á vefinn því að víða í upptökunni má finna dæmi um að Steinunn mismæli sig eða ræski sig og geri síðan stutta pásu og byrji síðan aðeins fyrr í textanum sem hún var búin að lesa. Slíkar aðferðir þekkja allir rithöfundar sem lesið hafa upp á band og vita að þá má treysta á að tæknifólk muni klippa misfelluna úr svo út verði samfelldur lestur. Eddufólk virðist hins vegar ekki hafa hirt um að sinna þessu og þess í stað sent út í loftið óunnið eintak að upplestrinum.

Þetta slær mjög á annars gott framtak Eddu sem vonandi sýnir meiri metnað þegar að útgáfu næstu MP3-bókar kemur hjá útgáfunni

På resa med Herodotos eftir Ryszard Kapuscinski

Ekki var hægt að láta hjá líða að renna í gegnum þessa nýjustu bók Ryszards Kapuscinski sem er tiltöluleg nýkomin út í sænskri þýðingu (enska þýðingin bíður útkomu síðar á þessu ári). Það kveður við nokkuð nýjan tón í þessari bók Kapuscinski enda má segja að sögumenn þessarar bókar séu tveir; Kapuscinski og svo forn-gríski sagnaritarinn Heródótus.

Kapuscinski heldur áfram í þessari bók að deila reynslusögum með lesendum sínum frá áratugalöngu starfi sínu sem fréttaritari víðs vegar um heiminn fyrir pólsku fréttaþjónustuna. Kapuscinski hefur í síðari bókum sínum, einkum í Imperium, færst nær sínum heimaslóðum og lýsingum á eigin uppruna og því heldur hann áfram í þessari nýju bók.

Við fáum að kynnast því hvernig fréttaritarinn Ryszard Kapuscinski varð til, allt frá fyrstu leiðöngrum hans til Indlands og Kína, þar sem hann er svo blautur á bak við eyrun að hann getur ekki einu sinni tjáð sig ensku (kannski það þurfi samt ekki að vera svo sjálfsagt að allir kunni endilega ensku) og er að mörgu leyti fullkomlega bjargarlaus eins og fugl sem dottið hefur úr hreiðri sínu.

Strax þarna í byrjun ferils síns er hinni stóru og miklu sagnabók Heródótusar gaukað að honum og upp frá því verður sagnaritarinn Heródótus honum að nokkru leyti fyrirmynd og bókina tekur hann með sér hvert á land sem er til þess að geta slegið upp í, sér til dægrastyttingar eða fróðleiks.

Kapuscinski reynir að sýna fram á andstæðurnar eða hliðstæðurnar milli þess sem fyrir augu Heródótusar bar á hans ferðum og þess sem Kapuscinski sjálfur sá svo á sömu slóðum. Oft fylgja í bókinni langar tilvitnanir í Heródótus og fannnst mér persónulega þar vera um frekar leiðinlega útúrdúra að ræða. Fór svo að lokum að ég hálfhljóp yfir alla þá kafla bókarinnar sem höfðu að geyma tilvitnanir eða umfjallanir um sögusvið lýsingar Heródótusar enda hef ég snöggtum minni áhuga á lýsingum á konungum og stríðum fyrir botni miðjarðarhafs á fornsögulegum tíma en ég hef á þeim lýsingum sem Kapuscinski dregur upp í bókum sínum af lífinu og tilverunni nú og í náinni fortíð.

Þessi flétta Kapuscinski af eigin lýsingum og frásögnum Heródótusar varð því þreytandi til lengdar og gekk einhvern veginn ekki upp að mínu mati. Lýsingar Kapuscinskis á eigin reynslu standa hins vegar alltaf fyrir sínu og það er hið góða við þessa bók. Heródótusar-flétturnar endalausu eru hins vegar mínus í kladdann, að mínu mati.

12.7.06

When we were Orphans eftir Kazuo Ishiguro

Það eru auðvitað bölvaðir fordómar og alhæfingar af minni hálfu sem valda því að mér finnst að nafn Kazuo Ishiguro ætti að vera tengt hinni nýju bylgju enskra bókmennta þar sem tónn innflytjenda og afkomenda þeirra í bresku samfélagi er áberandi. Það kemur nefnilega mjög snemma í ljós við hlustun á skáldsögu hans When we were Orphans að varla er hægt að hugsa sér ,,breskari" sögu. Það kemur svo sem líka heim og saman við hina erkibresku Remains of the Day þar sem viðfangsefnið er eins breskt og það gæti nokkurn tíma orðið.

Í þessari bók er söguhetjan afkomandi Breta sem halda úti óformlegu nýlenduveldi í Sjanghæ í Kína með heljartökum sínum á Kínverjum í gegnum verslun með ópíum. Við fáum þó einkum að kynnast söguhetjunnar þegar að hún er komin á fullorðinsár, komin til Englands en búin að sjá á eftir báðum foreldrum sínum eftir að þeir hurfu sporlaust í Kína meðan að hún var enn þá barn. Söguhetjan, einkaspæjarinn Christopher Banks, ákveður að halda aftur austur eftir til þess að leita foreldra sinna en verður að gjalda fyrir barnslega heimssýn sína og rekst á fleiri veggi en hann hafði leyft sér að gera sér í hugarlund að kynnu að leynast á veginum.

Bókinni vex mjög ásmegin eftir því sem líður á. Hún byrjar hægt og fremur stirðlega (næstum leiðinlega, svei mér þá) en síðan fara hjólin að snúast og úr verður fyrirtaks skáldsaga. Helsti kostur bókarinnar er hversu meistaralega Ishiguro tekst að fanga þennan ótrúlega breska heimsveldishroka sem skín úr hugarfari og hegðan allra þeirra Breta, að aðalpersónunni meðtalinni, sem við sögu koma. Auðvelt hefði verið að detta ofan í þann pytt að pússa hornin af þessum einstaklega ógeðfelldu bresku eiginleikum þessa tíma til þess að gera sögupersónurnar, sérstaklega þá kannski aðalpersónuna, sympatískari í augum lesenda en það gerir Ishiguro sem betur fer ekki. Persónulýsingar ríma því vel við það sem maður getur, kannski á hæpnum forsendum þó, haldið fram að séu raunsannar lýsingar á hrokafullum breskum leiðindapúkum á 4. áratug síðustu aldar (sem er mestan part sögutími bókarinnar).

Í heildina bara nokkuð gott allt saman, sem sagt.

7.7.06

Vindens skugga eftir Caros Ruiz Zafon

Ég spyr mig sömu spurningar eftir hlustun á Skugga vindsins og ég gerði þegar að ég þrælaði mér í gegnum hlustun á fyrstu Harry Potter-bókunum tveimur: Hvað í ósköpunum finnst öllum svona merkilegt við þessa lélegu skruddu?!

Skuggi vindsins á það sameiginlegt með Harry Potter að í báðum tilvikum er um að ræða marflatar og klisjukenndar sögur sem eru eins og afrakstur af einhverju dauðhreinsuðu rithöfundanámskeiði þar sem öllum formúlum er jú fylgt en útkoman er jafnandlaus og lyftutónlist.

Kannski er það einmitt þetta sem virkar til þess að ná hylli alls fjöldans og komast í efsta sæti á vinsældalista: Búa til svona bókmenntalegan skyndibita.

Ég hlustaði þó til enda af sömu ástæðu og maður gerir oft þegar að maður er að reyna að komast að því hvað öllum hinum fannst svona stórmerkilegt og frábært við eitthvað sem allir eru að lesa og öllum finnst gott.

Niðurstaðan er hins vegar: Álíka innihaldsrík og Hagkaupsbæklingur. Sem sagt, rusl.

6.7.06

Jónsbók eftir Einar Kárason

Ég kom sjálfum mér mikið á óvart með því að sækjast eftir að lesa þessa bók meðan á Íslandsdvölinni stóð og enn meira kom ég sjálfum mér á óvart að ég skyldi halda þennan 500 blaðsíðna doðrant út.

Vart þarf að kynna athafnamanninn Jón Ólafsson fyrir Íslendingum. Eitthvað varð til þess að ég var spenntur fyrir að kynna mér sögu hans og sérstaklega lék mér forvitni á því hvernig establisseraður skáldsagnahöfundur eins og Einar Kárason myndi taka á því verkefni að skrifa ævisögu kappans. Ég var jafnvel að vona að Einar hefði haft hugmyndaflug og skáldgáfu til þess að taka ævisagnaformið nýjum tökum og gæða sögu Jóns stíl og ferskleika hvað textann varðaði. Óhætt er að segja að hvað það varðar þá valdi verk Einars miklum vonbrigðum: skáldsagnahöfundinn færa er hvergi að sjá en þess í stað lækkar Einar sig um tign og gerist óbreyttur skrásetjari.

Yfirbragðið allt er gamaldags og lyktar af sama leiðinda-karlagrobbinu og gert hefur margar íslenskar ævisögur fortíðarinnar að óbærilegum lestri enda virðist tilgangurinn í slíkum sögum vera sá einn að segja fyndnar og skemmtilegar frægðarsögur af söguefninu. Tilgangurinn er þá sá að sýna fram á hversu vel viðkomandi er búinn þeim séríslensku kostum að vera aldrei með neitt helvítis kjaftæði, vinna myrkranna á milli þangað til að maður fær blæðandi magasár og vera útsmoginn og sýna hörku. Gamaldags karlmennska er dýrkuð til skýjanna og engar athugasemdir gerðir við það til dæmis að viðkomandi gefur sér engan tíma til þess að sinna fjölskyldu sinni vegna þess að honum finnst svo gaman í vinnunni.

Sérstaklega lyktar bókin af þessu framan af þar sem reynt er að gera mikið úr nauðaómerkilegri æsku og ungdómsárum Jóns Ólafssonar - ja, lífi sem alla vega er ekkert merkilegra en líf hvers annars ungs Íslendings. Þennan part bókarinnar hefði mátt stytta úr þeim sirka 200-250 blaðsíðum sem hann er niður í 40-50 síður. Raunar á það við um alla bókina að hún hefði haft gott af röskum ritstjóra sem hefði skorið hismið frá kjarnanum, sleppt öllum tilgangslausum frægðarsögum af Jóni sem skotið er inn í bara til að sýna hversu óborganlegur karakter hann Jón Ólafsson er. Öllu hefði vel mátt koma til skila á tæpum 300 blaðsíðum.

Þó er ekki svo að skilja að bókin sé alslæm, langt í frá. Það fer nefnilega að verða meira og meira varið í bókina eftir því sem líður á hana og helgast það af því að þá síaukast umsvif Jóns og þá er athyglisverðast að lesa um alla þá blóðugu baráttu sem á sér stað bak við tjöldin og um þau miklu völd sem í húfi eru í íslensku viðskiptalífi. Menn (þetta er heimur karlmanna!) svíkja bestu vini sína til þess að græða pening og stjórnmálamenn og -flokkar (mest megnis Sjálfstæðisflokkurinn) skiptir sér óhikað af. Mikil orka fer í það meðal valdamanna Sjálfstæðisflokksins að leggja hindranir í götu Jóns en þar á bæ er litið á hann sem óæskilega boðflennu inn í hið þegjandi samkomulag viðskiptalífsins og stjórnmálalífs á hægri kantinum að allt viðskiptalífið eigi að vera þægur þjónn Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu.

Lýsingarnar á þessu valdabrölti öllu bak við tjöldin er vafalaust langskemmtilegasti partur þessarar bókar og varð þess meira að segja valdandi að ég, sem ekki hef snefil af áhuga eða viti á viðskiptalífinu, heillaðist nokkuð af þessu ferli öllu.

Einar Kárason og fleiri lýstu því yfir við útkomu þessarar bókar að bókin væri algjörlega óháð og hlutlaus lýsing sem hvorki hygldi né smæði Jón Ólafsson frekar en aðra. Þetta stemmir þó ekki við lestur bókarinnar. Einar ræðir vissulega um öll mál við flesta þá sem við hann vildu ræða, bæði andstæðinga og samherja Jóns, en niðurstaðan í hverju máli er ætíð Jóni í hag hjá Einari og yfir öllu ríkir hetjublær Jóns sem er í augum Einars bara mjög góður kall þegar allt kemur til alls og allt annað byggir bara á misskilningi og einhverri öfund.

En þrátt fyrir ýmsa annmarka þá var þetta um margt fróðlegur lestur, einkum þegar líða tók á bókina og hún fór að segja sögu sem snerist um fleira en bara Jón sjálfan og hversu afbragðs skemmtilegur og merkilegur maður hann nú virðist vera í alla staði - ef marka má lesturinn.

5.7.06

Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason

Ein af þeim lestrarhefðum sem ég held hvað fastast í er að renna mér árlega í gegnum nýjasta krimmann hans Arnaldar Indriðasonar. Ég kvikaði ekki frá þeirri reglu minni nú meðan á Íslandsdvölinni stóð í júní og varð mér út um Vetrarborgina frá því úr síðasta jólabókaflóði.

Skemmst frá að segja er Vetrarborgin í flokki slappari bóka eftir Arnald. Ég hálfpartinn kláraði hana af skyldurækni og hlakkaði til að fara að snúa mér að einhverju öðru meira gefandi lesefni. Hugsaði í leiðinni til þeirrar póstmódernísku tísku sem undanfarið hefur geisað, einkum í hugvísindum, sem miðar meðal annars að því að jafna saman því sem áður hafði verið greint í flokkana hámenning og lágmenning. Glæpasögur eftir formúlu, eins og Arnaldarsögurnar eru, voru þar klárlega lágmenning áður en póstmóderníska endurskoðunin hófst.

Mér finnst eiginlega hálfpartinn kominn tími til að ljúka þessum fræðilega leik þar sem allt saman á að vera jafnmerkilegt og viðurkenna þess í stað aftur að sumt er merkilegt og annað síður merkilegt og þannig er það bara. Sögur Arnaldar snúast til dæmis um lítið annað en bara svona ,,og svo gerðist þetta, og svo gerðist þetta". Lítið meira á bakvið og allt fremur flatt. Sögurnar þjóna reyndar ágætis hlutverki sem þokkalegasta afþreying en mikið er nú margt merkilegra og skemmtilegra en Vetrarborgin.

Brott och straff eftir Fjodor Dostojevskíj

Það fór aldrei svo að maður renndi sér ekki í gegnum eins og eitt stykki af verkum Dostojevskíjs. Hljóðbók var það að vísu en heilir 22 diskar voru það og í þessum líka fantafína sænska lestri. Það skiptir nefnilega miklu máli að upplesturinn sé góður, þannig er það ekki alltaf en þannig var það svo sannarlega núna.

Ég ætla að hlífa fólki við langlokum um bókmenntafræðilegar vangaveltur Glæps og refsingar en læt hér bara nægja að segja að ekki er nú nein tilviljun að sagan um Raskolníkov og aðrar litríka karaktera Pétursborgar 19. aldar er klassík. Bæði frábært verk og skemmtilegt.

Og svo sem ekki orð um það meir.